Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra ítrekaði að það væri meðal forgangsatriða hjá ríkisstjórninni að huga að nýjum þjóðarleikvöngum á yfirstandandi kjörtímabili þegar hann svaraði fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnum í gær.

„Það er algerlega skýrt af hálfu þessarar ríkisstjórnar að við erum að setja það sem lýtur að þessari þjóðarhöll og þjóðarleikvöngum í forgang. Það liggur hins vegar alveg fyrir — og þarf að vinna ákveðna grunnvinnu hvað það snertir, það er stýrihópur starfandi vegna þess það þarf að fara fram samtal við borgina og íþróttahreyfinguna — að það þarf að forma hvar við byrjum, hvað við leggjum áherslu á. “

Ásmundur og ríkisstjórn Íslands hafa mætt talsverðri gagnrýni undanfarna daga eftir að það kom í ljós að það væri ekki gert ráð fyrir neinu fjárútláti frá ríkisstjórninni til nýrra þjóðarleikvanga í fjármálaáætlun næstu fimm ára.

Ásmundur bætti við að hann ætti von á því að kynna á næstu dögum áform um næstu skref er varðar þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir. Það sé því ekki rétt að það sé verið að svíkja þjóðina með brostnum loforðum.

„Ég tek undir áhyggjur hv. þingmanns gagnvart sérstaklega innanhússíþróttunum. Sú vinna er í fullum gangi. Ég reikna með því að öðrum hvorum megin við þessa helgi munum við kynna hvernig við sjáum fyrir okkur skrefin stigin á þessu kjörtímabili hvað það snertir. “

Helga Vala, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi síendurtekin loforð ríkisstjórnarflokkanna

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi fjármálaáætlun ríkisstjórnar og að ekkert væri minnst á nýja þjóðarleikvanga í ljósi þess að íslensk landslið væru að leika á undanþágum enda aðstaða þeirra ólögleg.

Eftir áralanga umræðu um mikilvægi uppbyggingar nýrra leikvanga og loforð þess efnis væri ekki ein króna sett í verkefnið og því hægt að spurja sig hvort að eitthvað væri að marka yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um málefnið.

Um leið gagnrýndi Helga Vala sífelldar skýrslugerðir, fundarhöld og loforð um málið án framkvæmda ásamt því að bæta við að hún ætti eftir að sjá hvaðan peningurinn kæmi sem ætti að fjármagna nýja þjóðarleikvanga.