Varnarmaðurinn Ásgeir Eyþórsson hefur skrifað undir nýjan samning við knattspyrnudeild Fylkis en sá samningur gildir út keppnistímabilið 2022.

Ásgeir sem er fæddur árið 1993 er uppalinn í félaginu en hann hefur verið í lykilhlutverki í varnarleik Fylkisliðsins sem hefur komið liða mest á óvart á Íslandsmótinu í sumar.

Hann spilaði fyrsta leik sinn í efstu deild árið 2011 og hefur síðan þá spilað 166 leiki í deild og bikar og skorað í þeim leikjum 14 mörk. Þessi 27 ára gamli miðvörður hefur leikið alla 17 deildarleiki Fylkis í sumar og komið boltanum þrisvar sinnum í mark andstæðinganna.

Fylkir sem situr í þriðja sæti Íslandsmótsins með 28 stig og er stigi á undan Breiðabliki og Stjörnunni sem eru í sætunum þar fyrir neðan sækir Blika heim í næsta leik sínum á mótinu á sunnudaginn kemur.