Ásgeir Sigurgeirsson keppti í dag á Ólympíuleikunum í Tókýó og hafnaði í 28. sæti í loftskammbyssu af 10 metra færi á skorinu 570-13x.

Ásgeir, sem var að keppa á sínum öðrum Ólympíuleikum, hóf keppnina vel og skoraði 95 í fyrstu tíu skotunum og 98 í næstu tíu.

Ekki gekk eins vel i næstu skotum þar á eftir en í lokin átti hann aftur góða kafla. Serían hjá honum var eftirfarandi: 95, 98, 91, 92, 97, 97.

Í keppni í loftskammbyssu komast átta efstu í úrslit og Ásgeir komst þar af leiðandi ekki í úrslit en 36 keppendur kepptu í greininni.