Ásdís Hjálmsdóttir Annerud, sem lagði frjálsíþróttaskó sína á hilluna síðastliðið haust, hefur verið kosin nýr formaður íþróttamannanefndar íþróttasambands Íslands, ÍSÍ.

Ásdísi mun einnig taka sæti íþróttamanna í framkvæmdarstjórn ÍSÍ og verður sú tilnefning borin undir 75. Íþróttaþing ÍSÍ í dag.

Íþróttamannanefnd ÍSÍ starfar samkvæmt reglugerð en hlutverk nefndarinnar er að vera málsvari íþróttamanna í samskiptum við ÍSÍ. Í nefndinni skulu sitja fimm meðlimir og er samsetning hennar samkvæmt skilyrðum reglugerðarinnar.

Kosningar til Íþróttamannanefndar fara fram annað hvert ár á sérstökum kosningafundi. Hvert sérsamband ÍSÍ getur tilnefnt karl og konu, sem uppfyllir þátttökuskilyrði sem fulltrúi sérsambandsins, á kosningafundinn og hefur hvert sérsamband því tvö atkvæði á fundinum.

Í framboði á þessum fyrsta kosningafundi voru sjö íþróttamenn, um þau fimm sæti sem í boði voru. Eftirfarandi hlutu kosningu í nefndina fyrir starfstímabilið 2021-2023.

Anton Sveinn Mckee, sund
Ásdís Hjálmsdóttir Annerud, frjálsíþróttir
Dominiqua Alma Belányi, fimleikar
Guðlaug Edda Hannesdóttir, þríþraut
Sigurður Már Atlason, dans