Ásdís Hjálmsdóttir bætti í dag 27 ára gamalt Íslandsmet Guðbjargar Hönnu Gylfadóttur í kúluvarpi þegar Ásdís náði 16,53 metra kasti.

Ásdís hefur um árabil verið ein fremsta kona landsins í spjótkasti og keppt á síðustu þremur Ólympíuleikum. Hún tilkynnti það á dögunum að tímabilinu væri lokið til að hefja endurhæfingu og undirbúning fyrir næsta sumar.

Þrátt fyrir það tók hún þátt í móti í kúluvarpi og kastaði 16,53 metra í fyrstu tilraun sem er 0,2 metra lengra en met Guðbjargar. Fyrir þetta átti Ásdís kast upp á 16,08 metra frá árinu 2016.

Ásdís á einnig metið í kúluvarpi innanhúss, 15,96 metra sem hún setti árið 2017.