Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir bestu leikmenn heims ganga til liðs við Arsenal. Hann segir að félagið muni reyna að fá inn leikmenn núna í janúar félagsskiptaglugganum.

Á blaðamannafundi í gær, í aðdraganda leiks Arsenal og Liverpool í enska deildarbikarnum sem fer fram í kvöld, var Arteta spurður út í orðróm þess efnis að Arsenal ætlaði sér að næla í framherjann efnilega Dusan Vlahovic, leikmann Fiorentina.

Fréttir síðustu vikna herma að Arsenal hafi mikinn áhuga á að fá Dusan til liðs við sig. Framherjinn hefur átt framúrskarandi gengi að fagna í ítölsu úrvalsdeildinni á tímabilinu. Hins vegar er talið að Dusan vilji ekki ganga til liðs við Arsenal, að minnsta kosti ekki á þessum tímapunkti.

,,Maður heyrir marga orðróma. Sumir þeirra eru mögulegir en aðrir eru óhugsandi. Ég tel að félög séu alltaf að reyna bæta leikmannahóp sinn," sagði Arteta á blaðamannafundi.

Hann segir það prentað í sögu Arsenal að félagið reyni ávallt við bestu leikmenn heims. ,,Sögulega séð hefur þetta félag alltaf verið að reyna við bestu leikmenn heims og bestu leikmenn heims vildu alltaf koma hingað, það hefur ekki breyst. Í hvert skipti sem ég hef talað við einhvern leikmann, hafa þeir alltaf verið mjög áhugasamir um að koma."

Það sem ku vera óheillandi fyrir bestu leikmenn heims er sú staðreynd að Arsenal hefur undanfarin ár ekki átt sæti í Meistaradeild Evrópu. Arsenal er sem stendur í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, í Meistaradeildarsæti sem gæti gefið þeim mikið, takist þeim að halda í það.