Arsenal staðfesti í dag að félagið hefði gengið frá kaupunum á Rúnari Alex Rúnarssyni, landsliðsmarkverði í knattspyrnu, frá Dijon í Frakklandi. Félagaskiptin hafa legið í loftinu frá því fyrir nýliðna helgi.

Rúnar Alex er með því sjötti Íslendingurinn sem semur við Skytturnar og gæti orðið fjórði leikmaðurinn sem leikur fyrir félagið.

Albert Guðmundsson var sá fyrsti til þess að leika með liðinu og næstur í röðinni var Sigurður Jónsson. Ólafur Ingi Skúlason lék svo nokkra leiki með liðinu. Þá voru bræðurnir Valur Fannar og Stefán Gíslasynir voru svo á mála hjá Arsenal án þess að spila með liðinu.

Í samtali við heimasíðu Arsenal segist Edu, yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal, að félagið hafi lengi fylgst með Rúnari.

Rúnar Alex segir hins vegar að hann sé að ganga til liðs við eitt stærsta félag í heimi og dagurinn í dag sé því mjög stór fyrir sig og fjölskyldu sína. Þá segist Rúnar Alex gera sér grein fyrir því að hann þurfi að leggja mikið á sig til þess að fá að spila með jafn góðu liði og Arsenal er. Hann sé klár í að leggja á sig þá vinnu sem þarf til þess að fá spiltíma á milli stanganna.

Skytturnar þurftu á varamarkmanni að halda eftir að hafa selt Emiliano Martinez til Aston Villa á dögunum. Inaki Cana, markmannsþjálfari Arsenal, þekkir vel til Rúnars eftir að hafa unnið saman hjá Nordsjælland.

Þýski markvörðurinn Bernd Leno er enn á undan Rúnari í goggunarröðuninni og þá fullyrða enskir fjölmiðlar að Arsenal gæti bætt við öðrum markmanni fyrir lok félagsskiptagluggans.

Rúnar Alex fær treyju númer þrettán og gæti leikið fyrsta leik sinn fyrir hönd Arsenal á næstu dögum þegar liðið hefur keppni í deildarbikarnum með því að mæta Leicester City á miðvikudaginn kemur.