Arsenal er búið að spyrjast fyrir um Brendan Rodgers, knattspyrnustjóra Leicester en Leicester og Rodgers hafa afþakkað frekari viðræður við Skytturnar.

Skytturnar eru í leit að nýjum knattspyrnustjóra eftir að hafa rekið Unai Emery fyrir helgi. Freddie Ljungberg stýrði liði Arsenal í jafntefli gegn Norwich um helgina.

David Ornstein, blaðamaður The Athletic, greinir frá því í dag að forráðamenn Arsenal séu með Rodgers ofarlega á blaði og félagið hafi óskað eftir því að ræða við Rodgers en bæði Rodgers og Leicester hafi afþakkað frekari viðræður.

Rodgers tók við liði Leicester fyrr á þessu ári og undir hans stjórn er Leicester í öðru sæti deildarinnar eftir fjórtán umferðir, átta stigum á eftir Liverpool.

Hann hefur þegar verið orðaður við knattspyrnustjórastöðuna hjá Tottenham en virðist vera sáttur hjá Leicester að svo stöddu.