Erkifjendurnir og nágrannarnir Arsenal og Chelsea mætast í úrslitum Evrópudeildarinnar eftir leiki kvöldsins.

Þetta er í fyrsta sinn í 47 ár sem ensk lið mætast í úrslitum Evrópudeildarinnar.

Staðan var 1-1 eftir fyrri leik liðanna í Þýskalandi og kom Ruben Loftus-Cheek Chelsea yfir um miðbik fyrri hálfleiks.

Frankfurt jafnaði með marki frá Luka Jovic og tókst ekki að skora sigurmark í venjulegum leiktíma né framlengingu.

Þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni þar sem Kepa Arrizabalaga reyndist hetja Chelsea.

Cesar Azpilicueta brenndi af sinni spyrnu en Kepa varði síðustu tvær spyrnur Frankfurt og bjargaði með því fyrirliða sínum og landa.

Fyrr í kvöld vann Arsenal 4-2 sigur á Valencia og 7-3 sigur samanlagt í seinna einvíginu í undanúrslitunum.

Skytturnar voru í góðri stöðu fyrir kvöldið en Valencia fékk draumabyrjun þegar Kevin Gameiro kom heimamönnum yfir.

Arsenal svaraði með mörkum frá Pierre-Emerick Aubameyang og Alexandre Lacazette áður en Gameiro jafnaði á ný.

Aubameyang gerði út um leikinn með tveimur mörkum undir lok leiksins og fullkomnaði um leið þrennuna.