Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði karlaliðs Arsenal í knattspyrnu, hefur skrifað undir nýjan samning við Arsenal. Nýi samningurinn gildir til ársins 2023 en viðræður um framtíð Gabonmannsins hjá félaginu hafa staðið yfir í þó nokkurn tíma.

Þessi 31 árs gamli framherji kom til Arsenal frá Borussia Dortmund árið 2018 en hann er nú fyrirliði liðsins. „Ég hef áhuga á því að verða goðsögn hjá Arsenal og þess vegna skrifaði ég undir þennan samning," sagði Aubameyang eftir að hafa undirritað samninginn.

Aubameyang skoraði 22 mörk í ensku úrvasdeildinni á síðasta keppnistímabili en hann varð næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar. Hann var svo á skotskónum og skoraði eitt marka Arsenal þegar liðið lagði Fulham að velli, 3-0, í fyrstu umferð deildarinnar um síðustu helgi.

Alls hefur Aubameyang skorað 72 mörk í 111 leikjum í öllum keppnum fyrir Arsenal á þeim þremur leiktíðum sem hann hefur leikið með liðinu. Næst leikur Arsenal er á laugardaginn kemur þegar liðið fær West Ham United í heimsókn á Emirates.