Arsenal hefur leiktíðina í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla vel en liðið hafði betur 2-1 þegar Burnley kom í heimsókn á Emirates í fyrsta leik í annarri umferð deildarinnar í dag.

Franski framherjinn Alexandre Lacazette kom heimamönnum yfir eftir tæpan stundarfjórðgung þegar hann kom sér í skotfæri þrátt fyrir að vera sitjandi og skoraði með föstu skoti.

Daniel Ceballos sem var að hefja sinn fyrsta deildarleik fyrir Arsenal og spilaði vel átti stoðsendinguna í marki Lacazette.

Ashley Barnes jafnaði svo metin fyrir Burnley skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks en gestirnir höfðu þjarmað að marki Arsenal í aðdraganda marksins og áttu markið skilið.

Staðan var 1-1 í hálfleik en það var svo Gabonmaðurinn Pierre-Emerick Aubameyang sem tryggði Arsenal stigin þrjú með marki sínu eftir rúmlega klukkutíma leik. Hann skoraði sömuleiðis sigurmarkið í sigri Arsenal gegn Newcastle United í fyrstu umferðinni.

Ceballos sem kom til Arsenal frá Real Madrid í sumar lagði sömuleiðis upp mark Aubameyang. Þetta er í fyrsti í 10 ár sem Arsenal fer með sigur af hólmi í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum.

Jóhann Berg Guðmundsson spilaði fyrstu 72 mínúturnar í liði Burnley og átti fjölmargar fínar fyrirgjafir sem liðsfélögum hans tókst ekki að færa sér í nyt.

Burnley hefur þrjú stig eftir fyrstu tvo leiki deildarinnar en liðið bar sigur úr býtum gegn Southampton í fyrstu umferðinni en Jóhann Berg skoraði eitt marka liðsins í þeim leik.