Enska úr­vals­deildarfélagið í knattspyrnu Arsenal hefur gert nýjan samning við hinn unga og efnilega miðvallarleikmann Joe Willock sem hefur hægt og rólega brotið sér leið inn í aðallið félagsins síðustu ár.

Ekki kemur fram í tilkynningu Arsenal hversu langur samningurinn er við Joe Willock en þar segir hins vegar að um langtímasamning sé að ræða.

Willock sem kemur úr unglingastarfi Arsenal hef­ur fengið traustið hjá Unai Emery í upphafi nýhafinnar leiktíðar en hann var í byrjunarliðinu í þremur fyrstu leikjum liðsins í ensku úrvalsdeildinni og kom svo inná sem varamaður í jafnteflinu í nágrannaslagnum gegn Tottenham Hotspur í fjórðu umferð deildarinnar.

Arsenal er í fimmta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki.

Alls hefur Willock leikið 20 mótsleiki fyrir Arsenal en hann lék sinn fyrsta leik árið 2017 þegar hann lék í leik liðsins gegn Doncaster Rovers í enska deildarbikarnum.

Hann hefur leikið fyrir yngri landslið Englands og var valinn í leikmannahóp enska U-21 árs landsliðsins sem valinn var fyrir vináttulandsleiki liðsins gegn Tyrklandi og Kósóvo fyrr í þessum mánuði.