Íslenski landsliðsfyrirliðinn í handbolta segir að ákvörðun um starfslok fyrrum landsliðsþjálfarans Guðmundar Guðmundssonar hafi komið flatt upp á sig. Frá þessu greindi Aron í samtali við RÚV en liðið er statt í Tékklandi og á morgun fer fram leikur við heimamenn í undankeppni EM.
HSÍ greindi frá því undir lok febrúar að sambandið hefði komist að samkomulagi við Guðmund um starfslok, tímasetning ákvörðunarinnar kom á óvart þar sem ekki var langt í að íslenska landsliðið ætti leiki í undankeppni EM, áður hafði liðið hins vegar ekki gert góða hluti á HM.
„Við leikmennirnir fengum bara tilkynningu um þetta rétt áður en þetta kom út,“ segir Aron í samtali við RÚV um starfslok Guðmundar. „Auðvitað kemur þetta flatt upp á mann. Þjálfarinn átti rúmt ár eftir af samningi og við vorum ekki að búast við þessu. En við stöndum og föllum með þeim ákvörðunum sem eru teknar hjá HSÍ og ætlum að gefa okkur alla í þetta verkefni.“
Það eru þeir Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon sem munu stýra landsliðinu í leikjunum tveimur í undankeppni EM sem leiknir verða á morgun og á sunnudaginn. Seinni leikurinn fer fram í Laugardalshöll.