Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson hefur samið við sænska liðið Hammarby en hann kemur til liðsins frá þýska liðinu Werder Bremen.

Samningur Arons við Hammarby er til þriggja ára en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu sænska félagsins.

Aron hefur verið mikið meiddur síðustu ár en auk Werder Bremen hefur hann leikið með AZ Alkmaar, AGF frá Árósum og uppeldisfélagi sínu Fjölni.

Hammarby er í sjöunda sæti sænsku úrvalsdeildarinnar en Viðar Örn Kjartansson hefur leikið sem lánsmaður með liðinu síðan í janúar fyrr á þessu ári.

Lánstíma Viðars Arnar sem er á mála hjá rússneska liðinu Rostov lýkur um miðjan júlí og ólíklegt þykir að hann muni vera áfram í herbúðum sænska liðsins eftir þann tíma.