Aron Pálmarsson segir frammistöðu íslenska landsliðsins í kvöld er liðið tapaði gegn Tékklandi í undankeppni EM vera liðinu til skammar.
Afleitur sóknarleikur varð íslenska karlalandsliðinu í handbolta að falli er liðið tapaði í kvöld sínum fyrsta leik eftir vonbrigðin sem liðið upplifði á HM. Andstæðingur kvöldsins var Tékkland í undankeppni EM, Tékkarnir voru sterkari og unnu að lokum fimm marka sigur 22-17.
Jafnframt var þetta fyrsti leikur íslenska liðsins eftir starfslok Guðmundar Guðmundssonar, fyrrum landsliðsþjálfara. Ágúst Jóhannsson og Gunnar Magnússon stýrðu íslenska liðinu í kvöld.
Fyrirliðinn var til viðtals hjá RÚV eftir leik þar sem hann var beðinn um að greina frá sínum viðbrögðum við frammistöðu liðsins.
,,Bara skelfilegt, skelfileg frammistaða hjá okkur. Uppleggið fannst mér fínt, það sem við vorum að reyna að gera fannst mér allt í lagi, við vorum að reyna teygja á þeim.
Við framkvæmum hlutina bara eins og einhverjir byrjendur og svo þegar að við náum að gera hlutina allt í lagi og komumst í gegn, þá látum við markvörðinn verja frá okkur nánast trekk í trekk.
Þessi sóknarleikur er bara skammarlegur fyrir lið eins og okkur."
Gunnar Birgisson, íþróttafréttamaður RÚV rifjaði þá upp væntingar þjóðarinnar og ekki síður leikmanna íslenska landsliðsins fyrir HM í janúar síðastliðnum þar sem stefnan var sett á átta liða úrslit keppninnar.
Aron segir liðið ekki vera á þeim stað að geta gert tilkall til sætis í átta liða úrslitum á stórmóti.
,,Nei ekki í dag, við erum bara ekki þar í dag, það er augljóst. Við skorum 17 mörk í einum handboltaleik, við erum bara ekki betri en það núna.
Mér finnst gæðin í liðinu jú vera þannig en við erum ekki að standa okkur þannig. Það sem við erum að gera inn á vellinum sóknarlega finnst mér vera okkur til skammar.
Við erum með menn sem eru að toppa á sínum ferli og ég, með alla mína reynslu, er að gera barnaleg mistök. Þetta er eitthvað sem við þurfum alvarlega að skoða."