Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handbolta, verður fjarri góðu gamni þegar lið hans, Álaborg, mætir fyrrverandi félagi hans, Kiel, í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Fram kemur í frétt á heimasíðu danska félagsins að Aron hafi fengið höfuðhögg í deildarleik Álaborgar gegn Ribe-Esbjerg um síðustu helgi.

Fyrir leik Álaborgar og Kiel er þýska liðið í öðru sæti með 11 stig líkt og topplið riðilsins Montpellier.

Álaborg er hins vegar í fjórða sæti með átta stig. Tvö efstu lið riðilsins fara beint í átta liða úrslit keppninnar. Liðin sem hafna í þriðja til sjötta sæti fara hins vegar í umspil um sæti í átta liða úrslitunum.

Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson munu dæma leik Álaborgar og Kiel sem fram fer í Danmörku og Arnór Atlason verður á hliðarlínunni en hann er aðstoðarþjálfari Álaborgarliðsins.