Aron Pálmarsson verður frá keppni næstu þrjár vikurnar vegna meiðsla. 

Aron meiddist í leik Barcelona og Bada Huesca í gær og nú er komið í ljós að hann verður frá í þrjár vikur. Hafnfirðingurinn missir m.a. af leik Barcelona og Evrópumeistara Vardar á laugardaginn.

Aron gekk í raðir Barcelona í október eftir langan og erfiðan viðskilnað við Veszprém.

Barcelona er með 12 stiga forskot á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar og í 3. sæti síns riðils í Meistaradeild Evrópu.