Aron Palmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, er einn fjölmargra leikmanna sem viðra þa skoðun sína í samtali við þýska miðilinn NDR að aflýsa eigi komandi heimsmeistaramóti vegna kórónaveirufaraldursins.

Aron segir að í ljósi aðstæðna þyki honum fáránlegt að leikmenn séu að ferðast til Egyptalands til þess að spila um verðlaun á heimsmeistaramóti.

Mótið fer fram í Egyptalandi, heimalandi Hassan Moustafa, formanns alþjóða handboltasambandsins, IHF, og talið er að sú staðreyndi leiði til þess að aukinn þrýstingur verði á að mótið verði haldið. Mótið á næsta ári verður það fyrsta þar sem 32 lið mæta til leiks.

Handboltasamband Íslands, HSÍ, tilkynnti í gær hvaða 35 leikmenn komi til greina hjá Guðmundi Þórði Guðmundssyni, þjálfara íslenska liðsins, á mótinu sem fram undan er.