Aron Einar Gunnarsson verður með íslenska landsliðinu í leiknum gegn Belgíu í Þjóðadeildinni 15. nóvember. Hann spilar hins vegar ekki vináttulandsleikinn gegn Katar fjórum dögum síðar.

Aron hefur glímt við meiðsli stóran hluta af árinu og hefur misst af síðustu fjórum landsleikjum vegna meiðsla.

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag, þar sem hópurinn fyrir næstu tvo leiki var kynntur, sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarþjálfari landsliðsins, að Aron væri ekki tilbúinn að spila tvo leiki á svona stuttum tíma.

Aron verður þó áfram með íslenska liðinu úti í Belgíu þótt hann spili ekki leikinn gegn Katar.