Aron Einar Gunnarsson er að semja við lið Al Arabi í Katar en félagið birti myndband á Twitter-síðu sinni í dag þar sem Aron heyrist undir lokin segjast vera á leiðinni.

Hjá Al Arabi mun Aron Einar leika undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands sem tók við liðinu fyrir áramót.

Aron á aðeins þrjá mánuði eftir af samningi sínum hjá Cardiff í ensku úrvalsdeildinni en hann framlengdi um eitt ár síðasta sumar eftir að Cardiff komst upp í úrvalsdeildina á ný.

Hann er á áttunda tímabili sínu hjá Cardiff eftir að hafa áður verið á mála hjá Coventry, AZ Alkmaar og hjá uppeldisfélaginu Þór frá Akureyri.

Aron eyddi tíma í Katar í aðdraganda HM þar sem hann gekkst undir endurhæfingu við meiðslum með góðum árangri.

Í myndbandinu sem sjá má hér fyrir neðan má heyra stuðningsmannalag Egils Einarssonar sem hann gaf út fyrir HM í sumar áður en Aron Einar tilkynnir undir lokin að hann sé á leiðinni.