Tromsö hefur samþykkt tilboð Start í kantmanninn Aron Sigurðarson.

Hinn 24 ára gamli Aron hefur leikið með Tromsö undanfarin tvö tímabil.

Í samtali við Verdens Gang segir Svein-Morten Johansen, íþróttastjóri Tromsö, að Aron hafi ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið. Samningur hans rennur út eftir næsta tímabil og til að eiga ekki á hættu á að missa hann fyrir ekki neitt ákvað Tromsö að selja Aron.

Tveir Íslendingar leika með Start; Kristján Flóki Finnbogason og Guðmundur Andri Tryggvason. Jóhannes Harðarson er aðstoðarþjálfari liðsins.

Start er nýliði í norsku úrvalsdeildinni.