Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, ákvað í dag að framlengja tímabundið úrræði sem gerir leikmönnum í Úkraínu og Rússlandi kleift að semja við önnur félög án greiðslu á meðan stríðið stendur yfir í Úkraínu.

Með því er leikmönnum í Úkraínu og Rússlandi heimilt að leita sér að nýju félagi án þess að tilvonandi félög þurfi að greiða fyrir félagsskiptin.

Samkvæmt undanþáguheimildinni er leikmönnum heimilt að óska eftir því að rifta samningi sínum en ef félög eru mótfallin því geta þeir farið í önnur félög á meðan stríðið stendur yfir.

Reglan tók gildi fljótlega eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst. Þannig gat Hörður Björgvin Magnússon yfirgefið CSKA Moskvu í vor þótt að hann væri með samning við rússneska félagið fram á sumar án þess að nýta sér það.

Hún nær til Arnórs Sigurðssonar, leikmanns CSKA Moskvu, en Arnór er með samning til næstu tveggja ára í Moskvu. Hann var á láni hjá Venezia á nýafstöðnu tímabili.

Þá hafa Anna Petryk, Ivan Kaliuzhnyi og Oleksiy Bykov leikið með íslenskum liðum það sem af er sumri sem áður léku með liðum í Úkraínu.