Arnór Þór Gunnarsson verður fjarri góðu gamni þegar lið hans, Bergischer, mætir lærisveinum Aðalsteins Eyjólfssonar hjá Erlangen í næstu umferð þýsku efstu deildarinnar í handbolta karla á fimmtudagskvöldið kemur.

Fram kemur í frétt inni á vefsíðu Handball-World að Arnór Þór hafi orðið fyrir meiðslum aftan í læri í jafntefli Bergischer á móti Ludwigs­hafen í síðustu umferð deildarinnar. Um sé að ræða rifu í vöðva sem muni ekki halda honum fjarri vellinum í langan tíma.

Arnór Þór hefur skorað 48 mörk í 11 deildarleikjum fyrir Bergischer á yfirstandandi leiktíð en liðið situr í 13. sæti deildarinnar með 13 stig. Hann er 18. markahæsti leikmaður deildarinnar.

Fyrir leiktíðina settu Arnór Þór og samherjar hans sér líklega það markmið að þurfa ekki að standa í fallbaráttu en liðið er sex stigum frá fallsvæði deildarinnar og siglir lygnan sjó eins og sakir standa.