Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs Smára Guðjohnsen, fyrrum atvinnu- og landsliðsmanns í knattspyrnu og núverandi þjálfara FH, segir son sinn lifa fyrir fótboltann. Eiður hafi stappað í sig stálinu og stokkið á erfitt verkefni með FH til að koma sér aftur í hringiðu fótboltans.

Eiður Smári tók við FH í erfiðri stöðu í júní og reynir nú að bjarga liðinu frá falli en fyrst reynir liðið að næla í bikar­meistara­titilinn á laugardaginn þar sem andstæðingurinn í bikarúrslitum er Víkingur Reykjavík með bróðir Eiðs, Arnór Borg innanborðs.

„Það var alveg ljóst þegar hann tók við FH að verk­efnið yrði gríðar­lega erfitt,“ segir Arnór um stöðu Eiðs Smára hjá FH. „FH-ingarnir höfðu farið mikið niður á við og það var ekkert að fara að stoppa það. Ég held raun­veru­lega að Eiður hafi stappað í sig stálinu og tekið þessa á­kvörðun, að taka við stjórn FH, til þess að koma sér enn betur í hringiðuna í fót­boltanum.

Eiður Smári lifir fyrir fót­boltann, þetta er hans ást­ríða og má segja að það gildi einnig um okkur fjöl­skylduna, alla­vegana strákana. Í­þróttin á hug okkar allan, við missum ekki af neinu.“

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari FH
Mynd: FH

Hljóti að verða róttækar breytingar hjá FH

Arnór segir það alveg ljóst að FH þurfi að fara í endur­skipu­lagningu. „Alveg sama hvernig þetta fer á yfir­standandi tíma­bili, það hljóta að verða rót­tækar breytingar. Það er þó eitt við FH,“ segir Arnór og bætir við:

„Alveg sama í hvaða stöðu liðið er, þá er alltaf reynt að spila fót­bolta og gerir liðið það á­gæt­lega.

Það vill hins vegar vera þannig hjá liðinu til þessa að þegar komið er á fremsta hluta vallarins lýkur þessum flottu að­gerðum. Þar hverfur trúin á því að gera mark eða mörk.“

Eiður Smári á hliðarlínunni í Kaplakrika ásamt Sigurvini Ólafssyni, aðstoðarmanni sínum
Eythor Arnason © /Torg

Um erfitt tíma­bil sé að ræða hjá fé­laginu. „Það er hins vegar mín sýn á þetta að einn daginn mun fé­lagið taka sig til og rísa upp aftur, þetta er það stórt fé­lag. Það er metnaður þarna, viljinn er mikill en það er mikil­vægt fyrir fé­lagið að gera sér grein fyrir því í hvaða stöðu það er. Fara í gegnum það hvað vantar upp á og hvaða leið er best til þess að rísa upp aftur. Þetta hefur verið stór­veldi í fót­boltanum síðustu 15 til 20 árin.

Þetta fé­lag, eins og ég þekki til þarna, ég get ekki í­myndað mér að það verði unað við stöðu liðsins í dag. Það er hins vegar of­boðs­lega mikil­vægt að for­ráða­menn þess komist að rót vandans, hvað fór í raun og veru úr­skeiðis og hvernig er hægt að fyrir­byggja að slíkt hið sama gerist aftur.

Tíma­bilið gæti hins vegar tekið góða stefnu takist FH að vinna bikar­meistara­titilinn og um leið tryggja sér sæti í Evrópu­keppni á næsta tíma­bili.“