CSKA Moskva hefur fest kaup á Skagamanninum Arnóri Sigurðssyni frá Norrköping. Að sögn forseta sænska félagsins hefur það aldrei selt leikmann fyrir jafn háa fjárhæð.

„Þótt upphæðirnar sem hafa komið fram í fjölmiðlum séu nokkuð ýktar er þetta stærsta salan í sögu félagsins,“ sagði Peter Hunt, forseti Norrköping, á heimasíðu félagsins.

Hjá CSKA Moskvu hittir Arnór fyrir landa sinn, Hörð Björgvin Magnússon. Hann býður hann velkominn til félagsins í þessu skemmtilega myndbandi þar sem víkingaklappið góða kemur mikið við sögu.

Arnór gekk í raðir Norrköping frá ÍA í fyrra. Hann hefur slegið í gegn í sænsku úrvalsdeildinni í sumar. Arnór skoraði þrjú mörk í 25 deildarleikjum með Norrköping.

CSKA Moskva er í riðli með Evrópumeisturum Real Madrid, Roma og Viktoria Plzen í Meistaradeild Evrópu en dregið var í riðla í gær.