Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu hafði betur 2-0 þegar liðið mætti Andorra í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvellinum í kvöld. Ísland hefur 15 stig eftir þennan sigur og situr áfram í þriðja sæti riðilsins en Frakkland og Tyrkland eru jöfn að stigum á toppi riðilsins með 19 stig hvort lið.

Kolbeinn Sigþórsson fékk fyrsta færi íslenska liðsins en markvörður Andorra varði fínan skalla hans í horn.

Eftir bragðdaufan fyrri hálfleik var það Arnór Sigurðsson sem braut ísinn fyrir íslenska liðið með sínu fyrsta marki fyrir A-landsliðið.

Boltinn barst þá til hans eftir fyrirgjöf Guðlaugs Victors Pálssonar og skalla Kolbeins og Arnór skilaði boltanum í netið með hnitmiðuðu skoti af stuttu færi.

Alfreð Finnbogason var svo nálægt því að tvöfalda forystu íslenska liðsins skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks en varnarmaður Andorra komst fyrir skot hans í góðu færi.

Kolbeinn náði merkum áfanga með marki sínu

Ísland hóf seinni hálfleikinn af nokkuð meiri krafti en liðið hafði gert í þeim fyrri og Kolbeinn var aðgangsharður upp við mark Andorra.

Kolbeinn var síðan á skotskónum um miðbik seinni hálfleiks þegar hann fékk laglega sendingu frá Ragnari Sigurðssyni úr vörn íslenska liðsins.

Markahrókurinn gerði vel í að koma sér einn gegn markverði Andorra, kláraði færið af stakri prýði og tvöfaldaði forystu íslenska liðsins.

Með þessu marki jafnaði Kolbeinn Eiða Smára Guðjohnsen á listanum yfir markahæstu leikmenn í sögu landsliðsins með 26 mörk.

Erfið staða Íslands fyrir síðustu tvær umferðirnar

Ísland fékk svo kjörið tækifæri til þess að skora þriðja markið en Gylfa Þór Sigurðssyni brást bogalistin af vítapunktinum. Það var sterkt hlaup Arnórs Ingva Traustasonar sem varð til þess að Ísland fékk víti. Gylfi Þór var svo aftur nálægt því að skora en aukaspyrna hans small í stönginn undir lok leiksins.

Lokatölur í leiknum urðu 2-0 Íslandi í vil en það sem skyggir á sigur kvöldsins er að Frakkland og Tyrkland gerðu 1-1 jafntefli í leik sínum í París.

Tyrkland og Frakkland eru í ansi vænlegri stöðu fyrir síðustu tvær umferðir undankeppninnar með 19 stig hvort lið á toppi riðilsins. Ísland er svo fjórum stigum þar á eftir í þriðja sæti riðilsins.

Næsti leikur íslenska liðins íslenska liðsins í undankeppninni er á móti Tyrklandi í Istanbúl en Ísland mætir svo Moldóvu í lokaumferðinni.