Diego Armando Mara­dona, ein­hver allra besti knatt­spyrnu­maður sögunnar, lést í dag. Mara­dona varð sex­tugur í októ­ber­mánuði og hefur hans verið minnst víða í dag. Mara­dona leiddi argentínska lands­liðið til sigurs á HM 1986 þar sem hann bar höfuð og herðar yfir and­stæðinga sína.

Frétta­blaðið fjallaði ítar­lega um feril Mara­dona árið 2011 og ræddi blaðamaðurinn Magnús Halldórsson við tvo Ís­lendinga sem urðu þess heiðurs að­njótandi að spila gegn honum. Þetta eru þeir Ás­geir Sigur­vins­son og Arnór Guð­john­sen, tveir af fremstu knatt­spyrnu­mönnum í sögu okkar Ís­lendinga.

Reyndu að hugsa ekki um Mara­dona

Í um­fjöllun blaðsins kom fram að Ás­geir hafi spilað á móti Mara­dona í tveimur úr­slita­leikjum í Evrópu­keppni fé­lags­liða árið 1989. Ás­geir var á miðjunni hjá Stutt­gart en fremstur á miðjunni í liði Napoli var Mara­dona. Þetta var þremur árum eftir úr­slita­keppni HM 1986 og þó að Mara­dona hafi ekki verið upp á sitt besta var hann lang­besti maður vallarins.

„Ég man að við töluðum um að spila okkar leik, reyna að hugsa sem minnst um stemninguna sem var á vellinum og allra síst um að Mara­dona væri að keppa á móti okkur. Hann var auð­vitað stór­kost­legur knatt­spyrnu­maður, með mjög næman leikskilning og tækni sem ég hef sjaldan eða aldrei séð. Við­horfið hjá okkur var hins vegar að spila okkar leik og gera okkar besta. Það gekk vel í fyrri leiknum í Napoli þó að við höfum tapað honum 2-1. Það voru ó­trú­leg læti á vellinum. Mikil öskur og hvatning frá á­horf­endum, og mikil per­sónu­dýrkun gagn­vart Mara­dona. Það var því ekkert sjálf­gefið að halda góðri ein­beitingu í þessum að­stæðum,“ sagði Ás­geir.

Mátti ekki líta af honum

Napoli var ekki bara eins manns her á þessum tíma og nefndi Ás­geir að fleiri frá­bærir leik­menn hafi verið í þeirra röðum, til dæmis Brasilíu­mennirnir Care­ca, sem var í fram­línunni, og varnar­miðju­manninn Alemao.

Maradona var stórbrotinn karakter.
Mynd/Getty Images

„Þeir voru afar góðir í að halda boltanum innan liðsins. Það er ekkert jafn erfitt og að spila á móti leik­mönnum sem ráða vel við að halda boltanum og hafa góða skilning á leiknum. Í minningunni var Napoli-liðið heil­steypt í þessum at­riðum, og síðan með snillinginn Mara­dona fremstan í flokki og einnig Care­ca sem var ban­eitraður fram­herji. Mara­dona var kannski ekki alveg á toppi ferilsins þegar við mættum honum en það mátti aldrei líta af honum. Hann var í al­gjörum sér­flokki þegar kom að leikskilningi og bolta­tækni, og oftar en ekki var maður minntur á það í leikjunum. Í seinni leiknum í Stutt­gart vorum við í miklum vand­ræðum. Napoli réð ferðinni og stýrði leiknum, þó að hann hafi endað 3-3. Þá minnti Mara­dona á hæfi­leika sína með því að leggja upp tvö mörk og vera sér­lega erfiður þegar kom að hlaupum fremst á vellinum. Hann tíma­setti þau með sínum ein­staka leikskilningi og gerði okkur lífið leitt. Það er þannig með svona snillinga eins og Mara­dona, og Messi nú á dögum, að það þýðir ekkert að ætla sér að stöðva leik­mennina með því að dekka þá stíft. Þeir ráða alltaf við það að fá leik­menn í sig á fullri ferð og nærast raunar svo­lítið á því. Í minningunni reyndum við að spila okkar leik og hugsa sem minnst um að einn besti leik­maður sögunnar væri inn á. Það gekk að mörgu leyti vel. En það var kannski lýsandi að það gekk ekki betur en svo að við töpuðum að lokum, ekki síst vegna úr­slita­sendinga frá Mara­dona, þó að hann hafi ekki skorað sjálfur.“

Sást langar leiðir að hann var sér­stakur

Í um­fjölluninni var einnig rætt við Arnór Guð­john­sen sem lék með Ander­lecht í Belgíu árið 1983 þegar heima­völlur liðsins var endur­byggður. Í til­efni af því að ný stúka var vígð komu gestir frá Kata­lóníu í heim­sókn, lið Barcelona, með Mara­dona innan­borðs. Mara­dona hafði verið keyptur frá Boca Juni­ors fyrir met­fé, 5 milljónir punda, árið áður.

„Þetta var nú frekar ró­legur leikur enda ekkert í húfi. Mara­dona hafði sig lítið í frammi í leiknum, en allir sáu langar leiðir að hann var sér­stakur. Nokkru eftir þennan leik spiluðum við á æfinga­móti á­samt Barcelona og Dort­mund. Við leik­mennirnir horfðum saman á leik Barcelona og Dort­mund og sáum þá Mara­dona í essinu sínu. Hann var ó­trú­lega góður al­hliða leik­maður á þessum tíma. Við trúðum því varla hversu góður hann var. Hann skoraði eina markið í þessum leik, sneri sér leiftur snöggt og þrumaði í þak netið, eins og að drekka vatn. Hann hafði gríðar­lega tækni, hraða, jafn­vægi, skot­tækni, líkam­legan styrk og leikskilning. Bók­staf­lega allt. Árin á eftir sá maður hann verða að besta leik­manni í ver­öldinni, og í mínum huga besta knatt­spyrnu­manni sem uppi hefur verið.“

Al­gjör­lega ó­gleyman­legur

Arnór rifjaði svo upp þegar hann sá hann spila í undan­úr­slitum Evrópu­keppninnar með Napoli gegn Bayern Munchen árið 1989.

„Ég var staddur í München í læknis­með­ferð og læknirinn gaf mér miða á leik Napoli og Bayern. Fyrir leikinn voru leik­menn að hita upp og hvergi sást Mara­dona. Þegar leik­menn beggja liða voru að koma til búnings her­bergja kom hann skokkandi út á völlinn, með ein­hverja menn sér við hlið, að­stoðar­þjálfara lík­lega. Á­horf­endur fóru strax að púa og láta í sér heyra. Það fór mikill kliður um á­horf­endur þegar hann lét sjá sig, enda var hann stærsta nafn í­þróttanna á þessum tíma og hafði þar að auki mikið að­dráttar­afl sem per­sóna. Hann hélt boltanum nokkrum sinnum á lofti, veifaði til stuðnings­manna Napoli og fór svo aftur inn í klefa. Hitaði nánast ekkert upp. Svo kom hann út á völlinn og var lang­bestur! Hann lék sér að leik­mönnum Bayern, sem var með frá­bært lið. Maður hallaði sér bara aftur og horfði á þennan snilling sýna listir sínar. Það sem skilur hann frá öðrum, t.d. Messi núna, var kannski helst það að hann hafði þann eigin­leika að geta fallið mjög aftar­lega á völlinn og stýrt gangi leikja, án þess kannski að leggja upp mörk eða skora. Hann tók leikinn oft til sín, eins og sagt er, var gjör­sam­lega ein­ráður þegar kom að taktinum í leikjunum. Það er afar sjald­gæfur eigin­leiki. Þetta gerði hann ein­mitt í þessum leik, lék í raun sem aftur­liggjandi miðju­maður, en var svo mættur fremst á völlinn þegar þurfti.“

Arnór sagði það sorg­legt hvernig farið hefði fyrir Mara­dona utan vallar en það eigi ekki að skemma minninga um besta knatt­spyrnu­mann fyrr og síðar, að mati Arnórs.

„Það er sorg­legt hvernig það hefur farið með orð­spor hans sem leik­manns. Menn muna of lítið eftir honum, margir hverjir. En fyrir mér er hann al­gjör­lega ó­gleyman­legur. Sér­stak­lega smá­at­riðin í leik hans, fyrsta snerting og augað fyrir spili. Full­kom­lega ó­trú­legur knatt­spyrnu­maður.“

Það er ekki að ástæðulausu að Maradona er dáður í Argentínu enda leiddi hann liðið til sigurs á HM 1986.
Mynd/Getty Images