„Það var geggjuð tilfinning að skora fyrsta markið fyrir landsliðið og það skemmdi alls ekki að það kom hérna á Laugardalsvellinum fyrir framan stuðningsmenn okkar," sagði Arnór Sigurðsson sem skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í 2-0 sigri liðsins gegn Andorra í undankeppni EM 2020 í kvöld.

„Aðstæður voru erfiðar til þess að spila fallegan fótbolta í þessum leik. Það var töluverður vindur og við vorum lengi að finna taktinn. Þegar við áttuðum okkur á því fórum við þá leið og hengja boltann á Alfreð [Finnbogason] og Kolbein [Sigþórsson] og það gekk betur eftir það," sagði Arnór enn fremur.

„Markið létti svo pressuna á okkur og seinna markið sem Kolbeinn skoraði varð til þess að við vorum nokkuð vissir um að sigurinn myndi enda okkar megin. Það var hins vegar leiðinlegt að koma inn í klefa og fá þær upplýsingar að Tyrkir hefðu gert jafntefli við Frakka," segir sóknartengiliðurinn en Frakkland og Tyrkland eru jöfn á toppi riðilsins með 19 stig og Ísland kemur þar á eftir með 15 stig.

„Nú verðum við bara að klára síðustu tvo leikina af fagmennsku, ná í tvo sigra í þeim leikjum og sjá hverju það skilar okkur. Það var gaman að fá tækifæri í þessum leik og vonandi verður áframhald á því að ég fái að spila í næstu leikjum liðsins," sagði Arnór um framhaldið.