Rússneska knattspyrnusambandið lýsti sig mótfallið hugmyndum FIFA um að framlengja undanþáguheimildina að leikmenn geti fengið að yfirgefa rússnesk félög án greiðslu til eins árs. Rússneska knattspyrnusambandið er búið að bjóða félögum aðstoð ef þau vilja kæra úrskurðinn.

Í vikunni ákvað Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, að framlengja undanþáguheimild til leikmanna sem eru samningsbundnir í Rússlandi og Úkraínu til eins árs.

Samkvæmt henni geta leikmenn fundið sér nýtt félag tímabundið á meðan stríðið stendur yfir ef félögin eru ekki tilbúin að semja um riftun á samningi.

Arnór Sigurðsson er samningsbundinn CSKA Moskvu til næstu tveggja ára og getur því yfirgefið félagið. Það er undir félaginu komið hvort að það verði eftir riftun á samningi eða samkvæmt undanþáguheimildinni.

„Knattspyrnusamband Rússlands er ósátt með ákvörðun FIFA að leyfa erlendum leikmönnum og þjálfurum að yfirgefa félög sín til eins árs þrátt fyrir samning um annað. Knattspyrnusambandið er tilbúið að veita félögum lögfræðilega aðstoð ef þau vilja kæra þessa ákvörðun. Um leið teljum við að þetta geti ekki átt við samninga sem voru undirritaðir eftir 24. febrúar 2022,“ segir í yfirlýsingu rússneska knattspyrnusambandsins.