Afturelding fer vel af stað í Olísdeild karla í handbolta en liðið lagði KA að velli, 28-27, þegar liðin áttust við í æsispennandi leik Íþróttamiðstöðinni að Varmá í kvöld. Fyrr í dag hafði ÍBV betur gegn Stjörnunni í fyrsta leik deildarinnar.

Heimamenn höfðu forystuna lengst af í leiknum en þegar skammt var eftir af leiknum jöfnuðu KA-menn metin í 25-25. Aftuelding komst hins vegar aftur yfir í 28-27 og á lokaandartökum leiksins varði Arnór Freyr Stefánsson vítakast Áka Egilsnes og tryggði Mosfellingum sigurinn.

Birkir Benediktssson var markahæstur hjá Aftureldingu með tíu mörk en Þorsteinn Gauti Hjálmarsson sem kom í Mosfellsbæinn frá Fram í sumar kom næstur með átta mörk og Tumi Steinn Rúnarsson þar á eftir með fimm.

Dagur Gautason var hins vegar atkvæðamestur hjá KA með sjö mörk og Tarik Kasumovic, Áki Egilsnes og Patrekur Stefánsson sem færði sig um set til KA frá Akureyri fyrir leiktíðina bættu fimm mörkum hver við í sarpinn fyrir norðanmenn.

Umferðin heldur áfram annað kvöld með leikjum Vals og Fram og nýliða Fjölnis og ÍR. Umferðinni lýkur svo með leikjum FH sem eru bikarmeistarar og ríkjandi Íslandsmeistara Selfoss annars vegar og Hauka sem urðu deildarmeistarar síðasta vor og HK sem eru hinir nýliðarnir.

Áki Egilsnes var öflugur í liði KA-manna í dag.
Fréttablaðið/Ernir
Tumi Steinn Rúnarsson stýrði sóknarleik Aftureldingar með styrkri hendi.
Fréttablaðið/Ernir
Tarik Kasumovic átti fínan leik í skyttustöðunni fyrir KA.
Fréttablaðið/Ernir
Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar hrósaði sigri.
Fréttablaðið/Ernir
Jónatan Magnússon er kominn inn í þjálfarateymi KA.
Fréttablaðið/Ernir