Arngrímur segir stuðningsmann ÍA hafa látið ljót orð falla í garð Kwame Quee sem kom við sögu hjá Víkingum í 3-0 sigrinum. Arngrímur sat í Sýnar-stúkunni eins og flestir þekkja hana.

„Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki látið vita af þessu. Í Bretlandi eru reglurnar með svona mál á hreinu. Það var bara farið strax í N-orðið og svo glotta menn út í annað í kring. Þetta gerðist eftir að Kwame braut af sér;" sagði Arngrímur við Fréttablaðið í dag en hann hafði ritað um málið á Facebook síðu sína í gær.

Arngrími var brugðið og skrifaði á Faceobok.

„Er eitthvað verklag í boltanum hér heima varðandi að maður verði vitni að kynþáttaníð á fótboltaleik? Veit að í Englandi reportarðu viðkomandi strax til vallarvarðar og viðkomandi er hent tafarlaust út og veðrur jafnvel kærður. Ég var á bikarúrslitaleiknum í gær í hólfi N í nýju stúkunni og einn stuðningsmaður ÍA á sextugsaldri sem sat rétt hjá mér droppaði n-bombunnni á leikmann nr 77 Kwame Quee hjá Víkingum sem er þeldökkur," skrifar Arngrímur um málið. Hann vissi ekki hvaða leið hann ætti að fara til að tilkynna málið.

Kwame lengst til vinstri.
Anton Brink

Ómar Smárason sem sér um samskiptamál og fjölmiðlatengsl hjá KSÍ segir við Fréttablaðið að í svona tilfelli eigi að láta næsta vallarvörð vita. Síðan á að tilkynna málið til félagsins eða beint til KSÍ sem skoðar þá málið.

Arngrímur sér eftir því að hafa ekki farið með málið til næsta gæslumanns á vellinum. „Ég og sessunautur minn heyrðum þetta báðir skýrt. Náungunum sem voru með honum fannst þetta sýndist mér frekar sniðugt.  Dauðsé eftir því að hafa ekki talað við vallarvörð. Maður var bara svo gáttaður á þessu," skrifaði Arngrímur á Facebook.

Víkingur er Íslands- og bikarmeistari en Kwame átti fína spretti í sumar. Hann lék í rúman hálftíma í úrslitaleiknum en kantmaðurinn knái kemur frá Síerra Leóne.