Enskir fjölmiðlar greina frá því að enska knattspyrnufélaginu West Ham United hafi borist kauptilboð sem hljóðar upp á um það bil 35 milljónir punda frá kínversku liði í austurríska landsliðsframherjann Marko Arnautovic. 

Ekki kemur fram í frétt ensku fjölmiðlanna um hvaða kínverska lið er að ræða, en þar segir að West Ham United hafi umsvifalaust neitað þessu tilboði. 

Kínverska liðið geti hins vegar boðið Arnautovic laun sem West Ham United ráði ekki við að jafna og því sé líklegt að Austurríkismanninum litist vel á að færa sig um set. 

Þá hefur samband Austurríkismannsins skapheita við Manuel Pellegrini knattspyrnustjóra West Ham United verið stormasamt í vetur og spurning hvort að Sílemaðurinn sé af þeim sökum á þeim buxunum í að breyta til í framlínu liðsins. 

Arnautovic sem kom til West Ham United frá Stoke City sumarið 2017 hefur skorað sjö mörk í 15 leikjum í öllum keppnum fyrir liðið á yfirstandandi leiktíð. West Ham United situr sem stendur í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 28 stig eftir 21 leik.