Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hefur ekki rætt við Aron Einar Gunnarsson frá því að héraðssaksóknari ákvað að fella niður kynferðisbrotamál gegn Aroni og Eggerti Gunnþóri Jónssyni í síðustu viku. Að sögn Vöndu eru engar reglur sem banna Arnari Þór Viðarssyni að velja Aron í næsta verkefni karlalandsliðsins. Þetta kom fram í skriflegu svari Vöndu við fyrirspurn Fréttablaðsins.

„Eins og staðan er núna þá eru engar reglur sem banna landsliðsþjálfara að velja ákveðna leikmenn,“ segir Vanda, aðspurð hvort Arnar gæti valið Aron í landsliðshópinn fyrir næsta verkefni.

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Aðspurð sagðist hún ekki hafa rætt við Aron Einar um málið. Ísland mætir Ísrael og Albaníu í Þjóðadeildinni í næsta mánuði og mætir San Marínó í æfingaleik.

Aron hefur ekki komið við sögu í landsleik í tæpt ár. Síðasti leikur hans fyrir karlalandsliðið var gegn Póllandi í æfingaleik í júní í fyrra. Síðar á árinu var Aron sakaður um kynferðisbrot frá árinu 2010 og tók Arnar Þór að eigin sögn meðvitaða ákvörðun um að velja Aron Einar ekki í landsliðshópinn fyrir leiki í í kjölfarið af því að málið komst í sviðsljósið. Aron hefur verið fyrirliði liðsins frá árinu 2012.

Sjálfur sagði Aron, sem var búinn hafa gefið kost á sér síðasta haust, að hans upplifun af málinu væri sú að stjórn KSÍ hefði komið í veg fyrir þátttöku hans.

„ÍSÍ er að vinna í að móta reglur og viðmið, sem átti að skila þann 1. mars síðastliðinn. Við erum að bíða eftir að sú vinna klárist, ásamt því að verið er að endurskoða regluverk samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Vonandi klárast þessi vinna sem allra fyrst. Þar sem þetta hefur dregist hefur KSÍ farið af stað í að útbúa bráðabirgðareglur sem eiga að verða tilbúnar á næstu vikum,“ segir Vanda, aðspurð út í möguleikann á því að Aron komi aftur inn í landsliðið.