Knattspyrnuþjálfarinn Arnar Gunnlaugsson framlengdi samning sinn við Víking Reykjavík út tímabilið 2025. Undir stjórn Arnars urðu Víkingar tvöfaldir meistara á síðasta tímabili og þá hafði liðið áður hampað bikarmeistaratitlinum undir hans stjórn árið 2019.

Í samtali við Fréttablaðið eftir blaðamannafund Víkinga fyrr í dag sagði Arnar því fylgja góð tilfinning að vera búinn að krota undir framlengingu á samningi sínum í Víkinni.

„Mér hefur alltaf liðið vel hérna í Víkingi frá fyrsta degi. Tilgangurinn með þessu er að halda þessu samstarfi áfram, bæði eigum við eftir að ná fullt af markmiðum saman, halda þessari vegferð áfram og okkur fannst þetta bara góður tímapunktur til þess að greina frá þessu.

Það er stórleikur fram undan á morgun, undanúrslitaleikur í bikarnum á móti Blikum og svo náttúrulega lokakeppnin í Íslandsmótinu. Vonandi virkar þetta á félagið og stuðningsmenn sem aukinn kraftur sem og leikmönnum. Kannski eru einhverjir leikmenn fúlir með að ég verði áfram," segir Arnar og hlær „en vonandi er það bara góð ákvörðun að tilkynna þetta hér með.

En hverju á hann eftir að áorka hjá Víkingum?

„Koma betra jafnvægi á liðið. Það er erfitt að gera ráð fyrir því að við séum alltaf að vinna titla en við viljum vera berjast um báða titlana. Svo miðað við hvernig þetta þróaðist í Evrópukeppnunum í sumar þá verðum við, hversu raunhæft sem það er, að gera atlögu að því að komast í riðlakeppni í Evrópukeppni. Það eru sterk markmið enn þá eftir sem við viljum ná og höfum næstu þrjú ár til þess."

Ítarlegt viðtal við Arnar Gunnlaugs þar sem hann ræðir meðal annars erfiða tíma hjá Víkingum, áhuga annarra félaga og sögur um áhuga frá Val má sjá hér fyrir neðan: