Arnar Guðjónsson hefur skrifað undir nýjan samning við körfuboltadeild Stjörnunnar um að stýra meistaraflokki karla hjá félaginu næstu þrjú árin.

Arnar tók við Stjörnunni fyrir tímabilið 2018-2019. Liðið hefur unnið þá bikartitla sem í boði hafa verið í boði í stjórnartíð hans auk þess að landa tveimur deildarmeistaratitlum.

Stjarnan etur þessa dagana kappi við Grindavík í átta liða úrslitum Domino's-deildarinnar en staðan í því einvígi er 1-1.

Auk þessa að þjálfa meistaraflokk karla þá hefur Arnar látið til sín taka varðandi uppbyggingu yngri flokka með því að þjálfa yngri flokka.

Á dögunum varð 8. flokkur stúlkna Íslandsmeistari undir stjórn Arnar.

Flestir leikmenn meistaraflokks karla eru áfram á samningi fyrir næsta keppnistímabil. Þannig framlengdi Arnþór Freyr Guðmundsson samning sinn við félagið í gær.

Þá framlengud Hlynur Bæringsson, Ægir Þór Steinarsson, Gunnar Ólafsson og Tómas Þórður Hilmarsson samninga sína við Stjörnuna nýverið.