Garðar Örn Hin­riks­son, fyrrum knatt­spyrnu­dómari telur að Arnar Grétars­son eigi svo sannar­lega skilið að fá það fimm leikja bann sem hann hefur verið dæmdur í kjölfar leiks KA og KR í Bestu deild karla á dögunum. Hann stendur með fjórða dómara leiksins, Sveini Arnars­syni í þessu máli.

Garðar ritar í dag pistil sem birtist á vefsíðu Fótbolti.net varðandi málið en Arnar Grétarsson, þjálfari KA var í gær dæmdur í fimm leikja bann af aganefnd Knattspyrnusambands Íslands. Um verulega þunga refsingu er að ræða og því hefur verið varpað fram á samfélagsmiðlum að ástæða þessarar þungu refsingar einskorðist ekki einungis við það sem átti sér stað á leikdegi KA og KR, heldur hafi eitthvað átt sér stað milli Arnars og Sveins daginn eftir leik.

Í pistlinum bendir Garðar á Facebook færslu sem hann hafði áður ritað í tengslum við langd bannsins og að það hefði komið honum á óvart. „Miðað við það að Arnar hefði einungis kallað hann “fávita”. Þá var ég að miða við bann þjálfara Gróttu sem einnig fékk þriggja leikja bann á dögunum fyrir ofsa fengna framkomu í garð dómara.“

Það er mat Garðars að það að kalla dómara fávita verðskuldi ekki þriggja leikja bann. „Núna þegar ég hef farið betur yfir þetta á Arnar svo sannarlega skilið að fá þriggja leikja bann (alls fimm leikir) fyrir hegðun sína, ef ekki meira.“

Garðar segist standa með dómaranum, Sveini Arnarssyni í þessu máli.

„Það er eitt að veitast að dómara í leik en að gera það daginn eftir fer langt yfir mörkin. Tvennum sögum fer af því hvað gerðist daginn eftir en ef ég yrði settur í stól og beðinn um að dæma hvor væri að segja satt í þessu tilfelli myndi ég standa með dómaranum. Af hverju? Af því að ég er fyrrum dómari?“

Ísland er lítið land

Garðar hefur margra áratuga reynslu sem knattspyrnudómari og hann segist ekki vita um einn einasta knattspyrnudómara á þessum stigum knattspyrnunnar sem leiki sér að því að hreinlega ljúga um leikmann eða þjálfara til að koma honum í lengra bann.

„Það er frekar að við dómararnir drögum úr því sem gerðist sem kannski endurspeglast í bönnum á leikmönnum og þjálfurum. “Af hverju fékk hún/hann ekki lengra bann en þetta?”, spyrja margir sig eftir suma dóma aganefndar. Það er einfaldlega vegna þess að dómarinn hefur kannski ekki farið alla leið í skýrslu sinni varðandi hegðun viðkomandi sem var rekinn út af í leik eða framkomu viðkomandi eftir leik.“

Hann segist þekkja þetta á eigin skinni. „Ég vildi leikmönnum ekkert illt þegar ég skrifaði skýrslur um þá. Oft fór ég ekki alla leið en hefði þó oft átt að gera. Við búum í litlu landi þar sem allir þekkja alla og miklar líkur á að við rekumst á viðkomandi sem við skrifuðum skýrslur um. Það er það sem nákvæmlega gerðist daginn eftir leik KA og KR. Við viljum það ekki.“