Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag fyrir leik liðsins gegn pólska liðinu Lech Poznan í þriðju umferð Sambandsdeildar UEFA á Víkingsvelli á morgun.

Hann telur Víkinga eiga góða möguleika á morgun. ,,Við höfum átt góðar frammistöður í Evrópukeppnum þetta tímabilið og þó svo hægt sé að líta á okkur sem minni spámanninn komandi inn í þetta einvígi þá er þetta fótbolti, 11 á móti 11 og ég tel okkur eiga möguleika."

Aðspurður um stöðuna á leikmannahópi Víkinga fyrir leikinn hafði Arnar þetta að segja:

,,Það eru nokkur meiðsli að herja á hópinn en við erum með sterkan leikmannahóp og á mínum tíma hér sem þjálfari skýlum við okkur ekki á bak við meiðsli. Við mætum bara til leiks og leggjum hart að okkur. Það verður raunin á morgun."

Arnar er vel meðvitaður um styrkleika Lech Poznan.

,,Þetta er auðvitað mjög gott lið sem hefur hins vegar verið að ströggla í upphafi tímabils í Póllandi. Kannski hafa áherslurnar með nýjum þjálfara ekki skilað sér nægilega vel til þessa í spilamennsku liðsins. En það er mjög ljóst fyrir mér að þarna er á ferðinni gott lið með hæfileikaríka leikmenn."

,,Fyrir mér er aðeins tímaspursmál þar til þetta lið hrekkur í gírinn. Þetta er félag með mikla reynslu úr Evrópukeppnum og við erum vel meðvitaðir um styrkleika þeirra sem og veikleika. Vonandi getum við nýtt okkur þá á morgun.

Hann veit að Víkingar koma inn í einvígið sem minni spámenn.

,,Það væri barnalegt af okkur að telja okkur ekki koma inn í þetta einvígi sem minni spámaðurinn. Við höfum hins vegar verið það í einvígunum gegn Malmö sem og The New Saints. Við kýlum bara á þetta og spilum okkar leik. Við komum inn í þetta einvígi í góðu formi tel okkur geta veitt þeim góða mótspyrnu á morgun."