Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, kveðst afar sáttur með að hafa dregist gegn KR á heimavelli í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars karla. Það var dregið í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Víkingur sló KR út í 16-liða úrslitum keppninnar í fyrra. „Það er frábært að fá stórleik í 8-liða úrslitum, sérstaklega þegar það er heimaleikur. Það var líka góðs viti að mæta KR í fyrra, í 16-liða úrslitum, það kom tímabilinu okkar af stað þegar við slógum þá út,“ sagði Arnar. Víkingar fóru so alla leið og urðu bikarmeistarar í fyrra.

„Þetta er svaka saga á milli þessara liða undanfarin ár þannig það er gaman fyrir knattspyrnuaðdáendur líka að sjá þessi tvö sterku lið mætast,“ bætti Arnar við.

Í hinum þremur leikjunum taka Kórdrengir á móti FH, HK á móti Breiðabliki og KA á móti Ægi.

Einnig var dregið í undanúrslit Mjólkurbikars kvenna. Þar drógust Stjarnan og Valur saman annars vegar og Selfoss og Breiðablik hins vegar. Stjarnan og Selfoss eiga heimaleiki.