Albert Guðmundsson sem leikur í næstefstu deild á Ítalíu gæti komið aftur inn í landsliðshóp Íslands í knattspyrnu. Forsaga málsins er sú að síðasta haust ákvað Arnar Þór að hætta að velja Albert í landsliðshópinn. Sagði hann sóknarmanninn hafa sýnt slæmt hugarfar í verkefnum á undan og að hann ætti ekki skilið sæti í hópnum á meðan hann væri ekki til í að leggja sig allan fram, sama í hvaða hlutverki hann væri.
Frá þeim tíma sem Arnar tók þessa ákvörðun höfðu engin samskipti átt sér stað á milli þeirra fyrr en á dögunum. Samkvæmt öruggum heimildum hafði Arnar Þór frumkvæðið og hringdi í Albert sem spilað hefur frábærlega síðustu vikur á Ítalíu. Kannaði Arnar hug leikmannsins til mögulegrar endurkomu í landsliðshópinn fyrir leiki gegn Bosníu og Liechtenstein í undankeppni Evrópumótsins.
Miðað við fyrri orð Arnars er möguleg endurkoma Alberts á þeim forsendum að hann sé reiðubúinn að leggja sig allan fram, sama hvort hann sé í byrjunarliðinu eða á varamannabekknum. Arnar tekur líklega endanlega ákvörðun í dag um hvort hann velji Albert í 23 manna leikmannahóp sinn.
Albert í góðu formi
Sóknarmaðurinn spilar í næstefstu deild á Ítalíu með Genoa en hann hefur verið í herbúðum félagsins í rúmt ár. Genoa er í harðri baráttu um að komast upp í efstu deild og situr um þessar mundir í öðru sæti deildarinnar. Albert hefur á þessu tímabili spilað 29 leiki og skorað í þeim níu mörk og lagt upp fimm.
Hann hefur því komið að marki að meðaltali á 154 mínútna fresti. Sóknarmaðurinn hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína og reyndu félög í efstu deild á Ítalíu að kaupa hann frá Genoa í janúar.

Albert, sem er fæddur árið 1997, hefur spilað 33 A-landsleiki en honum hefur þó mistekist að verða algjör lykilmaður í liðinu. Albert hefur í heildina skorað sex mörk fyrir landsliðið en þrjú af þeim mörkum komu í leik gegn Indónesíu þar sem fólk þar í landi fékk að velja í liðið, tvö mörk komu gegn Liechtenstein og eitt gegn Ísrael.
Þessi hæfileikaríki leikmaður hefur því aðeins skorað í þremur landsleikjum. Albert hefur hins vegar aldrei spilað betri fótbolta en núna og ákveði Arnar Þór Viðarsson að velja hann aftur gæti hann komið inn með mikið sjálfstraust og reynst sterkt vopn þegar ný undankeppni fer af stað.
Hverjir verða í hópnum?
Ef Albert Guðmundsson verður í hópnum yrðu það stærstu tíðindin en fleiri endurkomur eru í kortunum. Eftir meiðsli hefur Alfreð Finnbogason náð vopnum sínum og hefur spilað vel með Lyngby í dönsku úrvalsdeildinni. Allar líkur eru á því að hann verði í hópi Arnars sem kynntur verður á morgun. Óvissa er í kringum Birki Bjarnason sem ekki hefur spilað í rúman mánuð með Adana Demirspor í Tyrklandi.
Birkir hefur ekki verið í leikmannahóp liðsins í síðustu leikjum eftir að stór jarðskjálfti reið yfir landið. Hann hefur sést æfa í Noregi undanfarið, Birkir hefur verið í litlu hlutverki hjá Adana á þessu tímabili og aðeins byrjað tvo deildarleiki af þeim 24 sem búnir eru. Birkir er leikjahæsti leikmaður í sögu Íslands.