Albert Guð­munds­son sem leikur í næst­efstu deild á Ítalíu gæti komið aftur inn í lands­liðs­hóp Ís­lands í knatt­spyrnu. For­saga málsins er sú að síðasta haust á­kvað Arnar Þór að hætta að velja Albert í lands­liðs­hópinn. Sagði hann sóknar­manninn hafa sýnt slæmt hugar­far í verk­efnum á undan og að hann ætti ekki skilið sæti í hópnum á meðan hann væri ekki til í að leggja sig allan fram, sama í hvaða hlut­verki hann væri.

Frá þeim tíma sem Arnar tók þessa á­kvörðun höfðu engin sam­skipti átt sér stað á milli þeirra fyrr en á dögunum. Sam­kvæmt öruggum heimildum hafði Arnar Þór frum­kvæðið og hringdi í Albert sem spilað hefur frá­bær­lega síðustu vikur á Ítalíu. Kannaði Arnar hug leik­mannsins til mögu­legrar endur­komu í lands­liðs­hópinn fyrir leiki gegn Bosníu og Liechten­stein í undan­keppni Evrópu­mótsins.

Miðað við fyrri orð Arnars er mögu­leg endur­koma Alberts á þeim for­sendum að hann sé reiðu­búinn að leggja sig allan fram, sama hvort hann sé í byrjunar­liðinu eða á vara­manna­bekknum. Arnar tekur lík­lega endan­lega á­kvörðun í dag um hvort hann velji Albert í 23 manna leik­manna­hóp sinn.

Albert í góðu formi

Sóknar­maðurinn spilar í næst­efstu deild á Ítalíu með Genoa en hann hefur verið í her­búðum fé­lagsins í rúmt ár. Genoa er í harðri bar­áttu um að komast upp í efstu deild og situr um þessar mundir í öðru sæti deildarinnar. Albert hefur á þessu tíma­bili spilað 29 leiki og skorað í þeim níu mörk og lagt upp fimm.

Hann hefur því komið að marki að meðal­tali á 154 mínútna fresti. Sóknar­maðurinn hefur fengið mikið lof fyrir frammi­stöðu sína og reyndu fé­lög í efstu deild á Ítalíu að kaupa hann frá Genoa í janúar.

Albert hefur verið á flugi með Genoa
Fréttablaðið/GettyImages

Albert, sem er fæddur árið 1997, hefur spilað 33 A-lands­leiki en honum hefur þó mis­tekist að verða al­gjör lykil­maður í liðinu. Albert hefur í heildina skorað sex mörk fyrir lands­liðið en þrjú af þeim mörkum komu í leik gegn Indónesíu þar sem fólk þar í landi fékk að velja í liðið, tvö mörk komu gegn Liechten­stein og eitt gegn Ísrael.

Þessi hæfi­leika­ríki leik­maður hefur því að­eins skorað í þremur lands­leikjum. Albert hefur hins vegar aldrei spilað betri fót­bolta en núna og á­kveði Arnar Þór Viðars­son að velja hann aftur gæti hann komið inn með mikið sjálfs­traust og reynst sterkt vopn þegar ný undan­keppni fer af stað.

Hverjir verða í hópnum?

Ef Albert Guð­munds­son verður í hópnum yrðu það stærstu tíðindin en fleiri endur­komur eru í kortunum. Eftir meiðsli hefur Al­freð Finn­boga­son náð vopnum sínum og hefur spilað vel með Lyng­by í dönsku úr­vals­deildinni. Allar líkur eru á því að hann verði í hópi Arnars sem kynntur verður á morgun. Ó­vissa er í kringum Birki Bjarna­son sem ekki hefur spilað í rúman mánuð með Adana Demir­spor í Tyrk­landi.

Birkir hefur ekki verið í leik­manna­hóp liðsins í síðustu leikjum eftir að stór jarð­skjálfti reið yfir landið. Hann hefur sést æfa í Noregi undan­farið, Birkir hefur verið í litlu hlut­verki hjá Adana á þessu tíma­bili og að­eins byrjað tvo deildar­leiki af þeim 24 sem búnir eru. Birkir er leikja­hæsti leik­maður í sögu Ís­lands.