Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari Íslenska landsliðsins í knattspyrnu er stoltur af því hvernig hefur gengið að vinna úr hlutunum hjá landsliðinu og KSÍ að undanförnu. Landsliðið heldur nú í enn eina undankeppni sína og freistar þess að komast á stórmót.

Frá því Arnar tók við sem lands­liðs­þjálfari í lok árs 2020 hefur margt breyst. Fjöldi leik­manna hvarf á braut og nýir komu inn. Nú hefur ís­lenska liðið hins vegar endur­heimt eitt­hvað af reynslu­meiri leik­mönnum og koma þeir inn í bland við unga og spennandi stráka.

„Ég er mjög stoltur af því hvernig við náðum að vinna úr hlutunum saman hér hjá KSÍ í fyrra. Planið sem við settum upp um hvar við vildum vera í byrjun árs 2023 hefur gengið eftir. Ég hef auð­vitað fengið mikla hjálp frá góðu fólki.

Ég er viss um að liðið og hópurinn núna er á mjög góðum stað. Það er af því við fórum í endur­nýjun. Ungir leik­menn spiluðu marga leiki til að fá reynsluna. Mér finnst blandan mjög góð. Mér finnst þetta sterkur hópur og tel mögu­leika okkar nokkuð góða.“

Arnar horfir björtum augum á fram­tíð ís­lenska liðsins.

„Ég er alveg pott­þéttur á því að ís­lenska lands­liðið á eftir að fara aftur á stór­mót, hvort sem það verður á næsta ári eða árum.“