„Það má með sanni segja að síðasti sólarhringur hafi verið viðburðarríkur og skemmtilegur. Ég fékk ekki mikinn tíma til þess að fagna sigrinum með U-21 árs landsliðinu úti í Lúxemborg.

Eftir leik tilkynnti KSÍ mér að Erik [Hamrén] og Freyr [Alexandersson] væru komnir í sóttkví og ég myndi stýra A-landsliðinu með Davíð Snorra [Jónassyni] og Þórði [Þórðarsyni]," sagði Arnar Þór Viðarsson, yfirmaður knattpspyrnumála hjá KSÍ, þjálfari íslenska U-21 árs landsliðsins og í kvöld þjálfari A-landsliðsins eftir 2-1 tap A-liðsins gegn Belgíu í Þjóðadeild UEFA á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Þá var ekkert annað að gera en að setjast upp í bíl, halda niður á flugvöll og koma sér heim. Þessi leikur var mjög vel uppsettur hjá Erik og Frey og mér fannst við spila mjög vel þrátt fyrir að hafa tapað. Mér fannst mjög skemmtilegt að fá þann heiður að stýra íslenska A-landsliðinu og það er eitthvað sem ég var ekki að búast við að myndi gerast á þessum tímapunkti. Ég er stoltur af strákunum sem spiluðu vel gegn firnasterku liði Belga," sagði Arnar Þór enn fremur.

„Það er erfitt að mæta þessu belgíska liði sem spilar leikkerfið 3-4-3 mjög vel. Þeir eru vel drillaðir í þessu kerfi og eru mjög klókir í að finna sér svæði á milli línanna. Þeir voru duglegir að koma Yannick Carrasco í góð hlaup og Romelu Lukaku reyndist okkur mjög erfiður. Við vorum hins vegar öflugir varnarlega og áttum nokkrar fínar sóknir. Við hefðum hins vegar getað gert betur í nokkur skipti á síðasta þriðjungi vallarins," sagði hann um andstæðing íslenska liðsins.