Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen sem myda þjálfarateymi karlalandsliðsins í knattspyrnu, eru með samning sem gildir út undankeppnina fyrir EM 2024.

Þetta kom fram í svari KSÍ við fyrirspurn Fréttablaðsins. Þeir stýra því liðinu á næsta tímabili Þjóðadeildarinnar á næsta ári og svo í undankeppni EM 2024 sem er árið 2023.

Þegar Arnar og Eiður voru kynntir til leiks kom fram í fréttatilkynningu frá KSÍ að þeir hefðu skrifað undir tveggja ára samning.

Á blaðamannafundi karlalandsliðsins á dögunum sagðist Arnar hafa skrifað undir þriggja ára samning þegar hann var spurður út í framtíð sína.

Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, staðfesti í samtali við Fréttablaðið í dag að þjálfarateymið hefði skrifað undir þriggja ára samning á sínum tíma.