Leikur Íslandsog Liechtenstein í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu karla sem fram fer á Rheinpark í Vaduz í kvöld verður áttunda viðureign liðanna.

Fjórum sinnum hefur Ísland fagnað sigri, tvisvar hafa liðin gert jafntefli og Liechtenstein hefur einu sinni haft betur.

Síðasti leikur liðanna var vináttulandsleikur sem spilaður var á Laugardalsvelli á fallegu júníkvöldi í aðdraganda lokakeppni Evrópumótsins árið 2016 þar sem íslenska liðið fór með 4-0 sigur af hólmi.

Birkir Már Sævarsson opnaði þar markareikning sinn fyrir íslenska landsliðið með glæsilegu skoti upp í samskeytin. Birkir Már tvöfaldaði svo markafjölda sinn þegar hann skoraði á móti Belgíu í Þjóðadeildinni síðasta haust.

Eiður Smári Guðjohnsen, núverandi landsliðsþjálfari, og Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson sem verða fjarri góðu gamni í leiknum í kvöld vegna meiðsla skoruðu svo sitt markið hver.

Skelfilegt kvöld í Vaduz í miðju góðæri

Þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli í vináttulandsleik í ágúst árið 2010 skoraði Rúrik Gíslason mark Íslands og í 2-0 sigri Íslands árið 2009 voru Arnór Smárason og Eiður Smári á skotskónum.

Öllu verri minningar eigum við Íslendingar af síðustu ferð okkar á Rheinpark. Íslenska liðið fór þá í sneypuför árið 2007 og hitaði landann upp fyrir komandi bankahrun með því að vera skellt 3-0 af Liechteinstein.

Ragnar Sigurðsson sem verður fjarri góðu gamni í leiknum í kvöld vegna meiðsla spilaði þann leik auk þjálfara íslenska liðsins í dag, Arnar Þórs Viðarssonar og Eiðs Smára.

Þjálfararnir vilja líklega kvitta fyrir þetta tap þegar liðin leiða saman hesta sína í kvöld.

Eiður Smári Guðjohnsen á ekki góðar minningar frá Rheinpark í Vaduz.
Fréttablaðið/Getty