Eins og fram hefur komið er allt starfslið íslenska karlslandsliðsins í knattspyrnu komið í sóttkví samkvæmt ákvörðun smitrakningateymis Almannavarnardeildar Ríkislögreglustjóra vegna COVID-smits starfsmanns. Enginn af leikmönnum íslenska liðsins er þó kominn í sóttkví og mun leikur Íslands og Belgíu í Þjóðadeild UEFA fara fram samkvæmt áætlun annað kvöld.

Þessi staða þýðir að manna þarf starfsmannateymi íslenska liðsins upp á nýtt fyrir þennan eina leik þar sem hvorki þjálfarar né aðrir starfsmenn liðsins geta verið viðstaddir.

Í þjálfarateyminu gegn Belgum verða Arnar Þór Viðarsson þjálfari U-21 landsliðs karla, Davíð Snorri Jónasson þjálfari U-17 landsliðs karla, sem og Þórður Þórðarson þjálfari U-19 landsliðs kvenna, sem verður markmannsþjálfari. Aðrir starfsmenn liðsins koma úr röðum A landsliðs kvenna og yngri landsliða karla og kvenna.

Erik Hamrén og Freyr Alexandersson, þjálfarar íslenska liðsins, verða svo staddir í glerbúri fyrir ofan stúkuna og munu þeir að öllum líkindum verða í samskiptum við fyrrgreinda aðila sem verða á hliðarlínunni í þessum leik.