Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta og yfirmaður knattspyrnusviðs hjá knattspyrnusambandi Íslands, KSÍ, var viðstaddur á fundi stjórnar sambandsins þegar rætt var um framtíð Eiðs Smára Guðjohnsen í starfi aðstoðarþjálfara íslenska liðsins.

Þetta kemur fram í frétt DV þar sem vitnað er í heimildarmann sem segir að Arnar Þór hafi verið sama sinnis og stjórn KSÍ um að Eiður Smári þyrfti að taka pokann sinn.

Arnar Þór og Eiður Smári höfðu unnið saman hjá KSÍ, fyrst sem þjálfarar íslenska U-21 árs landsliðsins frá því í janúar árið 2019 og svo A-landsliðsins frá desember 2020.

Þá léku þeir lengi saman með landsliðinu og í rúma þrjá mánuði með belgíska liðinu Cercle Brugge.