„Tilfinningin miklu er betri sem þjálfari en þetta er miklu erfiðara. Maður stendur þarna á hliðarlínunni með örlögin í höndum annarra,“ sagði brosmildur Arnar Gunnlaugsson í leikslok eftir að hafa stýrt liði Víkings til sigurs í bikarúrslitunum í dag.

„Ég er mjög glaður fyrir hönd strákanna. Ég setti traust mitt á þennan leikmannahóp, marga unga stráka í bland við reynslumeiri leikmenn og þetta er orðið að mjög flottu liði.“

Arnar tók undir að sigur Víkings hefði verið verðskuldaður.

„Það var góð stemming í klefanum alla vikuna og okkur leið vel í morgun. Við vorum vel undirbúnir, þéttir til baka og keyrðum vel á þá. FH er með mjög gott lið sem má ekki gefa neinn tíma á boltanum og við gerðum það vel ásamt því að skapa okkur færi.“

Lærisveinar Arnars náðu ekki inn markinu sem þeir verðskulduðu í fyrri hálfleik.

„Það hefði farið um mann fyrr í sumar en þetta lið hefur tekið stór skref í rétta átt og þroskast. Það kom aldrei upp neinn ótti, við vissum að markið myndi koma.“

Arnar steig varlega til jarðar þegar hann var spurður út í atvikin tvö sem gerðu útslagið, vítaspyrnuna sem Víkingur fékk og rauða spjaldið á Pétur Viðarsson.

„Ég sá rauða spjaldið ekki nægilega vel, kannski var það ósanngjarnt. Ég sá það ekki alveg nægileg vel en þetta var 100% víti.“