Arnar Pétursson tekur við íslenska kvennalandsliðinu í handbolta af Axeli Stefánssyni en þetta var staðfest í dag.

Eyjamaðurinn skrifaði undir tveggja ára samning við HSÍ og var kynntur til leiks á blaðamannafundi hjá HSÍ í dag.

Arnar tók sér eins árs hlé frá þjálfun eftir að hafa gert ÍBV að deildar-, bikar- og Íslandsmeisturum síðasta vor. Þá var hann hluti af þjálfarateymi ÍBV sem vann fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn árið 2014.

Næsta undankeppni kvennalandsliðsins verður undankeppni Evrópumótsins 2020 sem hefst í haust. Alls eru sjö ár liðin síðan Ísland komst síðast í lokakeppni stórmóts í kvennaflokki.

Landsliðið komst í umspil upp á sæti á HM í Japan sem fer fram í lok þessa árs en féll úr leik geng Spánverjum.