Arnar Þór Viðarsson segir ekki rétt að honum og Alberti Guðmundssyni hafi lent saman í yfirstandandi landsliðsverkefni sem lauk í kvöld með 2-2 jafnefli Íslands og Ísraels.

Orðrómur heyrðist á dögunum um að honum og Alberti hefði lent saman á fundi en Arnar segir það ekki rétt, aðspurður út í málið.

„Það er ekki rétt að okkur hafi lent saman. Við höfum rætt málin, margoft í þessu landsleikjahléi og ég skil að þetta er búið að vera erfitt fyrir hann, en það er ekki rétt að okkur hafi lent saman,“ sagði Arnar á blaðamannafundinum í kvöld.

Albert kom lítið við sögu í verkefninu en hann lék aðeins 31. mínútu í þremur leikjum í Þjóðardeildinni og 87. mínútur gegn San Marínó.

Í kvöld kom sóknartengiliðurinn inn á völlinn í uppbótartíma og gafst því lítill tími til að hafa áhrif á leikinn.