Arnar Grétarsson, þjálfari knattspyrnuliðs KA í Bestu deild karla var í gær dæmdur í fimm leikja bann af aganefnd Knattspyrnusambands Íslands eftir leik KA og KR í deildinni. Um verulega þunga refsingu er að ræða og því hefur verið varpað fram á samfélagsmiðlum að ástæða þessarar þungu refsingar einskorðist ekki einungis við það sem átti sér stað á leikdegi.

Arnar var ansi ósáttur með dómgæsluna í leik KA og KR og fékk undir lok leiks að líta rauða spjaldið eftir að hafa kallað fjórða dómara leiksins, Svein Arnarson „fokking fávita." Arnar fór því sjálfkrafa í tveggja leikja bann því þetta er ekki í fyrsta skipti á tímabilinu sem honum er gefið rauða spjaldið.

Vefsíðan Fótbolti.net greindi frá því að Arnar og Sveinn, sem eru báðir búsettir á Akureyri, hefðu mæst daginn eftir leik og „Arnari hafi ekki verið runnin reiðin þá" .

Í samtali við Fréttablaðið kveðst Sveinn Arnarsson, fjórði dómari leiksins ekki vilja tjá sig um samskipti sín og Arnars Grétarssonar, þjálfara KA. Aðspurður hvort hann vildi tjá sig um meint samskipti sín og Arnars daginn eftir leik KA og KR í Bestu deild karla kvaðst Sveinn ekki vilja gera það. ,,Nei," var svar hans við spurningu blaðamanns. Þá vildi hann ekki tjá sig um það hvort hann og Arnar hefðu átt í samskiptum daginn eftir leik.

Furða sig á lengd bannsins

Guðjón Guðmundsson, íþróttafréttamaður Stöðvar 2 setti inn færslu á samfélagsmiðilinn Twitter í gær þar sem hann furðaði sig á lengd bannsins sem Arnar fékk. „Þetta agabann á Arnar Grétarsson þjálfara KA er galið. Á hvaða ferðalagi eru menn. Ekki fleira. Eina."

Þá sköpuðust umræður við færslu Guðjóns. Sumir sögðu bannið réttlátt á meðan að aðrir, þar á meðal Stefán Hrafn Hagalínsson, sögðu að Arnar hefði veist að Sveini daginn eftir leik.

,,Addi veitist að varadómara leiksins í leiknum með svívirðingum, eftir leikinn í viðtölum með persónuárásum og daginn eftir úti á bílastæði við KA heimilið þar sem dómarinn var að skutla barninu sínu á æfingu. 5 leikja bannið of stutt. Uppeldisfélagið mitt KA ætti að bæta 5 við."

Guðmundur Óli Steingrímsson, fyrrum leikmaður og fyrirliði KA manna skerst þá í leikinn og segir það ekki rétt að Arnar hefði veist að Sveini úti á bílastæði.

,,Úti á bílastæði ? Nei nei, hann settist fyrir framan skrifstofuna hjá Arnari og fékk sér kaffibolla. Arnar rak hann út."