Víkingur Reykja­vík og FH mætast í dag í úr­slita­leik Mjólkur­bikarsins og þar verður skorið úr um hvaða lið lyftir bikar­meistara­titlinum. Takist Víkingum að vinna í dag skipar liðið sem og þjálfari þess, Arnar Gunn­laugs­son sér í sér­stakan flokk sem ekki margir til­heyra.

Víkingar geta unnið bikarmeistaratitilinn í þriðja skiptið í röð. Víkingur Reykjavík varð bikarmeistari árið 2019 og var það þá í fyrsta skiptið síðan árið 1971 sem félagið lyftir bikarmeistaratitlinum en frá árinu 2019 hefur ekkert annað félag orðið bikarmeistari.

Víkingar hafa einokað bikarmeistaratitilinn undanfarin ár
Valli

Árið 2020 vörðu Víkingar titil sinn í Mjólkurbikarnum og árið 2021 var keppninni aflýst vegna Covid-19 heimsmfaraldursins.

Takist Víkingum að vinna úrslitaleikinn gegn FH síðar í dag og verja bikarmeistaratitilinn skipar félagið sér í flokk með nokkrum útvöldum knattspyrnufélögum sem hafa unnið bikarmeistaratitilinn þrisvar sinnum eða oftar í röð.

Á upphafsárum bikarkeppninnar voru það KR-ingar sem réðu ríkjum í keppninni og unni bikarinn fimm sinnum í röð: 1960, 1961, 1962, 1963 og 1964. Enn þann dag í dag er það lengsta samfellda sigurganga félags í bikarkeppninni, bæði karla- og kvenna megin.

Næst gerðist það árin 1982-1984 að sama félagið næði að vinna bikarmeistaratitilinn þrisvar sinnum í röð. Það gerðu Skagamenn er þeir urðu bikarmeistarar 1982, 1983 og 1984 og það undir stjórn þriggja mismunandi þjálfara. George Kirby (1982), Harðar Jóhannessonar (1983) og Harðar Helgasonar (1984).

Árin 1990-1992 var röðin síðan komin að Valsmönnum sem urðu bikarmeistarar 1990, 1991 og 1992 undir stjórn Inga Björns Albertssonar. Víkingur Reykjavík getur því orðið fjórða félagið í sögu bikarkeppninnar til þess að vinna titilinn þrjú ár í röð.

Kemst Arnar í hóp goðsagna?

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur hefur gert magnaða hlutið á sínum tíma með liðið. Hann varð bikarmeistari á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari þess og hefur síðan þá einokað keppnina. Takist honum að stýra liði sínu til sigur síðar í dag í úrslitaleiknum gegn FH kemst hann í flokk með stórum nöfnum í íslenskri knattspyrnusögu.

Skagamaðurinn ungi sem er nú þjálfari ríkjandi Íslands- og bikarmeistara Víkings Reykjavíkur getur orðið þriðji þjálfarinn í sögu bikarkeppninnar karla megin til þess að stýra liði til sigurs í keppninni þrisvar sinnum í röð.

Það var Ingi Björn Albertsson, fyrrum þjálfari Valsmanna sem var sá fyrsti í sögunni til þess að takast þetta afrek. Það gerði hann, líkt og greint var frá fyrr í fréttinni, með Valsmönnum árin 1990, 1991 og 1992.

Ingi Björn Albertsson árið 2008 með syni sínum Alberti Brynjari og tengdasyni sínum Guðmundi Benediktssyni
©Torg ehf / Valgardur Gislason

Ingi Björn var hins vegar ekki lengi einn í þessum hóp því strax á eftir sigurgöngu hans í bikarkeppninni mætti Guðjón Þórðarson á svæðið. Enn sem komið er Guðjón Þórðarson eini þjálfarinn til þess að vinna bikarmeistaratitilinn fjórum sinnum í röð.

Það gerði hann með tveimur mismunandi félögum. Fyrst vann hann bikarmeistaratitilinn sem þjálfari ÍA árið 1993. Hann söðlaði síðan um, endaði í Vesturnænum og stýrði KR til sigurs í keppninni 1994 og 1995.

Árið 1996 var hann mættur aftur upp á Skaga og stýrði liði ÍA aftur til sigurs í keppninni það sama ár og því búinn að vinna bikarmeistaratitilinn fjögur ár í röð, met sem stendur enn þann dag í dag.

Guðjón Þórðarson með bikarinn árið 1995, hann var þá þjálfari KR

Arnar Gunnlaugsson var gestur í þættinum 433.is fyrr í vikunni þar sem hann var spurður út í þennan möguleika.

„Þetta eru algjörar goðsagnir. Guðjón náttúrulega vann þetta fjögur ár í röð sem er ótrúlegt. Í fyrsta lagi er bara mjög erfitt að vinna titil, hvað þá að verja titil. En að vinna þetta svona oft í röð er ótrúlegt. Maður þarf að vera auðmjúkur í slíkri stöðu og taka henni alvarlega."

Arnar Gunnlaugsson hefur gert magnaða hluti með Víkinga
©Anton Brink 2021

Það skipti miklu máli að vera með lið í höndunum sem hefur yfir að skipa miklum karakter.

„Lið sem kann að klára leiki því bikarleikir eru allt önnur ella heldur en deildarleikir. Árið 2019 höfðum við heppnina smá með okkur, í fyrra var þetta tiltölulega öruggt hjá okkur. Við unnum bikarinn mjög sannfærandi og sama hefur verið upp á teningnum hingað til í ár.

Þrátt fyrir mannabreytingar hefur þessi karakter haldist í leikmannahópnum og það er vilji hjá félaginu að vinna titilinn þrjú ár í röð. "

Fréttin er unnin upp úr gögnum af vefsíðu KSÍ sem og timarit.is

Þjálfarar sem hafa unnið bikarmeistaratitilinn í karlaflokki:

1960 (KR) - Óli B. Jónsson

1961 (KR) - Óli B. Jónsson

1962 (KR) - Sigurgeir Guðmannsson

1963 (KR) - Sigurgeir Guðmannsson

1964 (KR) - Jørgen Hvidemosse og Karl Guðmundsson

1965 ( Valur) - Geir Guðmundsson

1966 (KR) - Guðbjörn Jónsson

1967 (KR) - Sveinn Jónsson

1968 (ÍBV) - Hreiðar Ársælsson

1969 (ÍBA) - Einar Helgason

1970 (Fram) - Guðmundur Jónsson

1971 (Víkingur R.) - Eggert Jóhannesson

1972 (ÍBV) - Viktor Helgason

1973 (Fram) - Guðmundur Jónsson

1974 (Valur) - Dr.Yuri Ilychev

1975 (ÍBK) - Jón R. Jóhannsson og Guðni Kjartansson

1976 (Valur) - Dr. Yuri Ilychev

1977 (Valur) - Dr. Yuri Ilychev

1978 (ÍA) - George Kirby

1979 (Fram) - Hólmbert Friðjónsson

1980 (Fram) - Hólmbert Friðjónsson

1981 (ÍBV) - Kjartan Másson

1982 (ÍA) - George Kirby

1983 (ÍA) - Hörður Jóhannesson

1984 (ÍA) - Hörður Helgason

1985 (Fram) - Ásgeir Elíasson

1986 (ÍA) - Jim Barron

1987 (Fram) - Ásgeir Elíasson

1988 (Valur) - Hörður Helgason

1989 (Fram) - Ásgeir Elíasson

1990 (Valur) - Ingi Björn Albertsson

1991 (Valur) - Ingi Björn Albertsson

1992 (Valur) - Ingi Björn Albertsson

1993 (ÍA) - Guðjón Þórðarson

1994 (KR) - Guðjón Þórðarson

1995 (KR) - Guðjón Þórðarson

1996 (ÍA) - Guðjón Þórðarson

1997 (Keflavík) - Sigurður Björgvinsson

1998 (ÍBV) - Bjarni Jóhannsson

1999 (KR) - Atli Eðvaldsson

2000 (ÍA) - Ólafur Þórðarson

2001 (Fylkir) - Bjarni Jóhannsson

2002 (Fylkir) - Aðalsteinn Víglundsson

2003 (ÍA) - Ólafur Þórðarson

2004 (Keflavík) - Milan Stefán Jankovic

2005 (Valur) - Willum Þór Þórsson

2006 (Keflavík) - Kristján Guðmundsson

2007 (FH) - Ólafur Davíð Jóhannesson

2008 (KR) - Logi Ólafsson

2009 (Breiðablik) - Ólafur Helgi Kristjánsson

2010 (FH) - Heimir Guðjónsson

2011 (KR) - Rúnar Kristinsson

2012 (KR) - Rúnar Kristinsson

2013 (Fram) - Ríharður Daðason

2014 (KR) - Rúnar Kristinsson

2015 (Valur) - Ólafur Davíð Jóhannesson

2016 (Valur) - Ólafur Davíð Jóhannesson

2017 (ÍBV) - Kristján Guðmundsson

2018 (Stjarnan) - Rúnar Páll Sigmundsson

2019 (Víkingur R) - Arnar Bergmann Gunnlaugsson

2020 (Víkingur R) - Arnar Bergmann Gunnlaugsson

2021 KEPPNI AFLÝST VEGNA COVID-19

2022 (FH/Víkingur) - Eiður Smári Guðjohnsen / Arnar Bergmann Gunnlaugsson?